Saga Hvítlistar

Hvítlist hf. var stofnað í árslok 1986 en tók til starfa þann 21. mars 1987. Fyrirtækið var fyrst til húsa að Bygggörðum 7 á Seltjarnarnesi en flutti upp á Krókháls í september árið 2000.

Stofnendur voru Guðjón Sigurðsson og Fritz Bethien í Kaupmannahöfn.

Nafnið Hvítlist er íslenskun á gömlu hugtaki sem þekktist í Evrópu um pappírsgerð, þ.e. hin hvíta list, en innflutningur og verslun með prentpappír og umslög var frá upphafi aðalvettvangur fyrirtækisins.

Árið 1990 keypti Hvítlist Leðurverslun Jóns Brynjólfssonar hf, gamalgróið fyrirtæki, sem hafði sérhæft sig í verslun með leður. Þá hófst rekstur handverksdeildar Hvítlistar sem hefur vaxið jafnt og þétt síðan.

Á miðju ári 2000 varð Jóhann Ólafsson & Co hf. aðaleigandi Hvítlistar. Við það var sameinaður rekstur prentdeildar Jóhanns Ólafssonar og Hvítlistar. Um haustið var prentdeild Heimilistækja keypt og sameinuð Hvítlist.

Hvítlist keypti í desember 2005 allan rekstur Borgarfells ehf. af Halldóri Jakobssyni og fjölskyldu. Fyrirtækið sérhæfði sig í ýmsum tækjum og rekstrarvörum tengdum prentiðnaði og við kaupin varð Hvítlist enn sterkari en áður á prentmarkaði á Íslandi. Hvítlist býður nú fjölbreyttara úrval tækja og efnis til prentiðnaðar en nokkurt annað fyrirtæki hér á landi og stöðugt bætist við það úrval.

Í júlí 2008 keypti Hvítlist Björn Kristjánsson heildverslun en vöruúrvalið sem þar var fellur einkar vel að vöruúrvali handverksdeildar Hvítlistar. Með þessari viðbót við handverksdeildina er þjónusta við fatahönnuði og aðra sem vinna að framleiðslu á fatnaði aukin enn frekar.

Í júní 2015 keypti Hvítlist J. Ástvaldsson ehf. rótgróna heildverslun með rekstrarvörur fyrir prentsmiðjur og skrifstofur. Með þessum kaupum styrkist tæknideild Hvítlistar enn frekar og og vöruúrvalið jókst umtalsvert.